Óvæntur hanaslagur Sjalla

Það lítur út fyrir að ætla að hlaupa smá spenna í formannakjör Sjálfstæðisflokksins.

Guðlaugur Þór stökk nokkuð óvænt fram gegn Bjarna Ben. 

 

Manni dettur ósljálfrátt í hug sena frá David Attenborough, rostungur bröltir inn á yfirráðasvæði aðalrostungsins og hótar að reka vígtennurnar á kaf í hann og hirða svo allar dömurnar. "Nú já það hlaut svo sem að koma að þessu en dugar víst ekki annað en að verjast, annars er ég náttúrulega farinn" gæti hinn hugsað. 

 

Nema hvað að þetta verður auðvitað enginn rostungaslagur. Ekki milli tveggja kurteisustu og umtalsfrómustu stjórnmálamannanna í dag.  Enda vita þeir báðir að fátt er eins illa séð innan flokksins eins og veisluspillar sem velta um glösum. Nei baráttan er miklu líkari störukeppni. Hvor verður seinni til að segja eitthvað slæmt um hinn og svo auðvitað reyklausu bakherbergin, maður lifandi! 

Raunverulegu ágreiningsefnin látin liggja djúpt í súrnum og ekki nema rétt naslað í þau á bak við tjöldin.  Hvað svo sem dettur upp úr hörðustu fylgendum. 

Guðlaugur sagði nú svo sem ekki margt sem hönd var á festandi í viðtölum dagsins. Þó var hægt að lesa ýmislegt milli línanna.  

Eins og að Bjarni Ben sé ekki nógu fylgispakur við grunngildin að lækka skatta og draga úr bákninu. Venjulegi maðurinn sérstaklega einyrkinn eigi undir högg að sækja í flokknum. Þar sé Guðlaugur vænlegri kostur. 

Ekki hefur Guðlaugur þó sýnt mikið meiri lit á að liðka fyrir strandveiðum hvar sjálfstæða einyrkjan ætti nú helst að vera að finna a.m.k. eftir að kaupmaðurinn á horninu hvarf inn í lífeyrissjóðastyrkta fákeppnismafíu matvörumarkaðarins. 

Guð-laugur láti þó(r)  gott á vita.  Bjarni sjálfur aðeins valtur í sessi eftir að klúðra svo eftirminnilega sölunni á hlut ríkisins í Íslandsbanka að einn örfárra einstaklinga sem fengu að kaupa á sérstökum vildarkjörum var faðir hanns sjálfs.  Hvers vegna skýrsla ríkisendurskoðunar um það ferli dregst svona von úr viti og fram yfir leiðtogakjör Sjálfstæðisflokksins geta væntanlega ekki nema allra snjöllustu lagaklæjarefir og spunameistarar sagt til um. Samt, þrátt fyrir þetta virkar Bjarni sem helsta akkerið gegn kaosi íslenskra stjórnmála í dag.  Hugsanlega þó bara svona flinkur að plata mann ;-) 

 

En ef Bjarni Ben tapar fyrir Guðlaugi og ólíkt t.d. Haraldi Benediktssyni (ekki bræður), stendur við orð sín að hætta, þá er farin einn sá allra snjallasti pólitíkus sem hér hefur verið síðan að Steingrímur Hermannsson var og hét. Að ná að bræða saman núverandi ríkisstjórn úr nokkurnvegin engu og hreppa svo fjármálaráðuneytið sem stjórnar víst öllu (sbr. K.F.) var ekkert minna en hrein pólitísk snilld.

Bjarni áttaði sig náttúrulega á því að VG eru pólitísk börn sem þykir kexið bara betra báðum megin. Stæra sig af virkjunum sem þau hafa alla tíð verið á móti. Nú eða framsókn sem er eins og illa upp alinn prinsipplaus strákur sem veit ekkert hvað hann vill en verður til friðs fái hann bara nógu stóran sleikjó. 

Aðrir voru raunverulega óstjórntækir, þetta var það langskársta sem í boði var þar til kannski nú. (Miðflokkurinn auðvitað undanskilinn)

Guðlaugur má á hinn bóginn eiga að hann var sá eini sem sýndi einhvern lit á að aðstoða Vígdýsina Hauks í að reyna að grafast fyrir um lokuð myrkraverk fyrstu hreinu vinstristjórnarinnar gagnvart helstu fórnarlömbum Hrunsins. Þó lítið yrði úr enda þurftu svo margir að halda áfram að græða.  Mögulega á litli maðurinn raunverulega einhverja von í Gulla!

 

En svona til að enda þetta áður en maður móðgar mikið fleiri er réttast að vitna áfram í Attenborough en hann spurði "hvernig elskast broddgeltir"?  Sem er hugsanlega betri og réttari samlíking á baráttu þessara tveggja sjálfstæðisforkólfa!

Svarið er: "Mjög varlega"


Viðvarandi hagstjórnarmistök

Mesta böl margra íslendinga í dag er of hátt húsnæðisverð. 

Grunnástæðan er of lítið framboð á húsnæði. 

Þegar covid var og hét þá þurfti að örfa efnahagslífið hér sem annarsstaðar, reka peningana út að vinna.  Það var skynsamlegt. 

En sú hliðarverkun varð að lækkaðir vextir á lánum leiddi til þess að fólk gat tekið hærri lán og bauð hærra í allt of takmarkað framboð af húsnæði. 

Við þær aðstæður að framboð á húsnæði var áfram allt of lítið þá varð að gera hliðarráðstafanir til að eftirspurnin ryki ekki upp úr öllu valdi vegna lágu vaxtanna.

Einfaldast hefði verið að setja reglur um hærri eiginfjárkröfu, t.d. ekki lánað nema 2/3 af kaupverði. Þannig hefði eftirspurnin verið löguð að of litlu framboði á húsnæði og komið í veg fyrir bólumyndun. Næsta skref hefði svo verið með öllum ráðum að auka framboð á húsnæði.

Þetta voru hagstjórnarmistök númer 1.

Þau voru afar slæm og juku á neyð sérstaklega láglaunafólks og styrkþega. Eiga eftir að splundra hér kjarasamningum og skapa endalausa ólgu á vinnumarkaði. 

 

Nú er seðlabankastjóri að hækka vexti til að slá á verðbólgu sem reyndar stafar mest af húsnæðisverðbólunni og telur sig vera að kæla húsnæðismarkaðinn. 

Þarna er farið í öfuga endann, dregið úr eftirspurninni með verstu hugsanlegu aðferð til að ballansera hana við allt of lítið framboð. 

Betra hefði verið að kyngja óbragðinu af hagstjórnarmistökunum og laga það sem hægt var að laga. T.d. með því að hækka eiginfjárkröfu lántakenda, taka húsnæðisverð út úr vísitölunni a.m.k. tímabundið og halda vöxtum áfram tiltölulega lágum svo menn hætti nú ekki að byggja hús. 

Því grunnvandamál húsnæðismarkaðarins er of lítið framboð. Það þarf að byggja miklu fleiri hús. Með því að hækka vexti þá verður dýrara að byggja hús og þegar það fer saman verðlækkun á húsnæðismarkaði (sem mátti þó verða) þá er hætt við að fleiri en eitt og fleiri en tvö húsbyggingarverkefnin fari í vaskinn og önnur komist aldrei á koppinn. Því markmið stýrivaxtahækanna er jú að reka peningana inn í banka svo þeir fari nú ekki að valda þenslu. 

Þannig dregur vaxtahækkunin úr framboði á húsnæði og seinkar lausn stærsta efnahagsvanda okkar íslendinga sem er OF LÍTIÐ FRAMBOÐ Á HÚSNÆÐI!

Þetta eru hagstjórnarmistök númer 2. 

 

Svo bíða hagstjórnarmistök númer 3. handan við hornið. 

Því hver verður afleiðingin af hávaxtastefnunni. Húsbyggendur og húskaupendur fara umvörpum á hausinn, þeir og leigendur þurfa að greiða ógnarfé í vaxtahýtina, á endanum fellur húsnæðisverð niður úr öllu valdi (en ekki skuldir lántakenda) og þeir sem nutu vaxtahækananna kaupa húsin á hratvirði og heilu kynslóðirnar geta ekki komið þaki yfir höfuðið næstu árin.  

Við eigum að þekkja þetta allt, ekki svo langt síðan að það gerðist síðast. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband