Af Kölska WOW og Sæmundi (Skúla?) fróða!

Til er þjóðsaga um samskipti Kölska og Sæmundar fróða en hún byrjar í einni útgáfunni svona: 

"Sá skóli var í fyrndinni til út í heimi, sem hét Svartiskóli. Þar lærðu menn galdur og ýmsan fornan fróðleik. Svo var til háttað í skóla þessum, að hann var í jarðhúsi rammgjörvu mjög; á því var enginn gluggi, og var þar því alltaf niðamyrkur inni. Enginn var þar kennari, og námu menn allt af bókum, sem voru skrifaðar með eldrauðu letri, sem lesa mátti í myrkrinu. Aldrei máttu þeir, sem þar lærðu, koma undir bert loft eða sjá dagsljósið, á meðan þeir voru þar, en það voru þrír eða sjö vetur, sem þeir urðu að vera í skólanum til að verða fullnuma. Hönd ein grá og loðin kom á hverjum degi inn um vegginn og rétti skólapitunum mat. En það áskildi sá sér, sem skólann hélt, að hann skyldi eiga þann, sem síðastur gekk út af þeim, sem burtu fóru úr skólanum á ári hverju. En af því að allir vissu, að Köski hélt skólann, vildi hver, sem gat, forða sér frá því að ganga seinastur út úr honum." https://www.snerpa.is/net/thjod/saemi.htm

Fyrir nú utan merkilega líkingu við kortalestur í myrkum flugstjórnarklefa þá er þessi saga eins og þjóðsögur eru furðu oft, merkilega góð forskrift að því sem verið er að baksa í dag. 

Kölski þetta fyrirbæri sem er stöðugt að lofa einhverjum gæðum gegn veði sem gengið skal eftir þegar annað bregst. Skúli, nei Sæmundur, hetjan klóka sem er svona á mörkum þess að snuða kölska eða í það minnsta að snúa á þessa hörðu veðkröfu. 

Ef marka má fréttir þá virðist svo að ISAVIA hafi krafist þess veðs í vélum WOW Air fyrir greiðslu lendingargjalda að alltaf yrði a.m.k. ein að vera kyrr (a.m.k. undir það síðasta) í landinu og þar með sú síðasta sem yrði til að fara væri sú er kölski afsakið ríkisfyrirtækið ISAVIA tæki upp í skuldir. 

Vissulega algjörlega absúrd krafa þar sem WOW Air átti ekki baun í flugvélunum heldur voru þetta leiguvélar. 

Eins má af fréttum dæma að einmitt þessi regla hafi hleypt svo illu blóði í leigusala vélanna að þeir hafi rétt þegar félagið var að ná að forðast brotlendingu, kyrrsett vélar sínar í útlöndum og félagið féll!

Nú má vel vera að WOW hafi verið svo illa rekið að það hafi átt að fara á hausinn löngu fyrr t.d. þegar ISAVIA byrjaði að gefa eftir rukkanir um lendingargjöld, nú eða að það myndi fara á hausinn fljótlega af öðrum ástæðum en þessum. 

En horft frá sjónarhóli ríkisins og ríkisstjórnarinnar sem var ljós hættan bæði hætta á efnahagslegu áfalli af falli WOW sem og að þessi rúmi milljarður í lendingarskuldir tapaðist þá var þetta líklega versta mögulega niðurstaðan og sennilega þeim alveg óvænt. 

Enda ef marka má fréttir ISAVIA búið að semja eitthvað við WOW um greiðslu þessarar skuldar í framtíðinni. 

Þarna kom þessi furðuregla í stíl þjóðsögunnar um Kölska semsagt í bakið á þeim sem settu hana og héldu við.   Reyndar er líklegt að ESB muni eitthvað taka í taumana varðandi þessa "síðustu vél" svipað og gert var vegna kyrrsetningar Air Berlin vélar í Frakklandi á sínum tíma. 

Hvað kom svo út úr þessu umstangi öllu, fyrir utan það að Skúli tapaði aleigunni (að eigin sögn),fjárfestar töpuðu fjárfestingunni og Kölski afsakið ríkið var af lendingagjaldaskuldinni?

Nú væntanlega hafa menn tekið eftir gríðarlega auknum ferðamannastraumi í tíð WOW air en þar sem fyrirtækið hafði það að verkefni að flytja ferðamenn þá má ætla að eitthvert samband sé þar á milli.

Í kjölfarið (svona síðla árs 2015) rauk gengið upp eða var látið rjúka upp án afskipta, og upphófst eitt gríðarlegt neyslufyllerí þjóðarinnar að vísu í bland við alvarleg ruðningsáhrif svo sem húsnæðisbólu hverju skaffaranum Skúla verður þó seint kennt um fremur en verðbólguskotinu nú, þegar allt snýr við vegna falls WOW. Þar eru aðrir sökudólgar á ferð.

Þeim sem enn eiga erfitt með að sjá orsakasamhengið má benda á að við fall
WOW kemur upp atvinnuleysi í áður óþekktri stærð hér lendis. WOW hefur þar með verið eitthvað aðeins meira en froða. Það má segja að í falli Skúla sé fremd hans falin! A.m.k hvað hag þjóðfélagsins af þessu brölti varðar, fjárfestar verða að tala fyrir sig í þeim efnum. 

En er eitthvað hægt að læra af þessu annað en að stundum sé armslengdin full löng hjá hinu opinbera en þá meina ég að jafnvel þó stjórnvöld hefðu áttað sig á hættunni vegna Kölskareglunnar þá er óvíst að þau hefðu getað sagt ISAVIA að nú skyldu þeir hætta að
fylgja þeirri lagareglu að taka síðustu vél að veði! Já og umfram allt láta það orð berast með tryggum hætti til leigusala vélanna. 

Átti kannski að hlaupa til og breyta WOW air í ríkisflugfélag eða a.m.k. ríkið að kaupa hlut, svona eins og það gerði varðandi föllnu bankanna vansællar minningar?

Ekki skal því svarað hér, en eitt er augljóst, það yrði besti stuðningurinn við flug til landsins (og innan þess líka) að taka af lendingargjöld.

Þannig myndi ríkið styðja best og með sem almennustum hætti við þessa mikilvægu starfsgrein.

Látum svo bisnismennina vinna verkin og fjárfestana um áhættuna en samfélagið fá gróðann.

Síðan getum við setið og velt fyrir okkur hver er nú Sæmundur og hver er Kölski í öllu því dæmi!

 

 

 

Hér er svo lokayfirlýsing Skúla varðandi félagið:

 

Farin vélin fjólublá
fæstir halda kúli
Eignir finnast ekki í WOW
allt er tapað - Skúli!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það hefur reyndar lengi verið sagt bæði Kölska og Mafíunni til hróss að það hyski standi við alla sína samninga, þó djöfullegir séu. Hið sama verður seint sagt um um ríkið.

Magnús Sigurðsson, 1.4.2019 kl. 13:02

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

,,,btw, takk fyrir góðan pistil og vísu.

Magnús Sigurðsson, 1.4.2019 kl. 13:05

3 Smámynd: Bjarni Gunnlaugur Bjarnason

Ha,ha,ha, takk sömu leiðis fyrir innlitið. 

Ég rifjaði nýlega upp gömul kynni við bókina "Hættulegasta bráðin" eftir Gavin Lyall en sú verðlaunabók hefur nú elst svona og svona. 

Þar stóð einhversstaðar að glæpamenn væru yfirleitt heiðarlegastir, þeir yrðu að vera það þar sem þeir gerðu munnlega samninga og yrðu að standa við þá!  

Bjarni Gunnlaugur Bjarnason, 1.4.2019 kl. 16:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband