7.10.2022 | 21:24
Viðvarandi hagstjórnarmistök
Mesta böl margra íslendinga í dag er of hátt húsnæðisverð.
Grunnástæðan er of lítið framboð á húsnæði.
Þegar covid var og hét þá þurfti að örfa efnahagslífið hér sem annarsstaðar, reka peningana út að vinna. Það var skynsamlegt.
En sú hliðarverkun varð að lækkaðir vextir á lánum leiddi til þess að fólk gat tekið hærri lán og bauð hærra í allt of takmarkað framboð af húsnæði.
Við þær aðstæður að framboð á húsnæði var áfram allt of lítið þá varð að gera hliðarráðstafanir til að eftirspurnin ryki ekki upp úr öllu valdi vegna lágu vaxtanna.
Einfaldast hefði verið að setja reglur um hærri eiginfjárkröfu, t.d. ekki lánað nema 2/3 af kaupverði. Þannig hefði eftirspurnin verið löguð að of litlu framboði á húsnæði og komið í veg fyrir bólumyndun. Næsta skref hefði svo verið með öllum ráðum að auka framboð á húsnæði.
Þetta voru hagstjórnarmistök númer 1.
Þau voru afar slæm og juku á neyð sérstaklega láglaunafólks og styrkþega. Eiga eftir að splundra hér kjarasamningum og skapa endalausa ólgu á vinnumarkaði.
Nú er seðlabankastjóri að hækka vexti til að slá á verðbólgu sem reyndar stafar mest af húsnæðisverðbólunni og telur sig vera að kæla húsnæðismarkaðinn.
Þarna er farið í öfuga endann, dregið úr eftirspurninni með verstu hugsanlegu aðferð til að ballansera hana við allt of lítið framboð.
Betra hefði verið að kyngja óbragðinu af hagstjórnarmistökunum og laga það sem hægt var að laga. T.d. með því að hækka eiginfjárkröfu lántakenda, taka húsnæðisverð út úr vísitölunni a.m.k. tímabundið og halda vöxtum áfram tiltölulega lágum svo menn hætti nú ekki að byggja hús.
Því grunnvandamál húsnæðismarkaðarins er of lítið framboð. Það þarf að byggja miklu fleiri hús. Með því að hækka vexti þá verður dýrara að byggja hús og þegar það fer saman verðlækkun á húsnæðismarkaði (sem mátti þó verða) þá er hætt við að fleiri en eitt og fleiri en tvö húsbyggingarverkefnin fari í vaskinn og önnur komist aldrei á koppinn. Því markmið stýrivaxtahækanna er jú að reka peningana inn í banka svo þeir fari nú ekki að valda þenslu.
Þannig dregur vaxtahækkunin úr framboði á húsnæði og seinkar lausn stærsta efnahagsvanda okkar íslendinga sem er OF LÍTIÐ FRAMBOÐ Á HÚSNÆÐI!
Þetta eru hagstjórnarmistök númer 2.
Svo bíða hagstjórnarmistök númer 3. handan við hornið.
Því hver verður afleiðingin af hávaxtastefnunni. Húsbyggendur og húskaupendur fara umvörpum á hausinn, þeir og leigendur þurfa að greiða ógnarfé í vaxtahýtina, á endanum fellur húsnæðisverð niður úr öllu valdi (en ekki skuldir lántakenda) og þeir sem nutu vaxtahækananna kaupa húsin á hratvirði og heilu kynslóðirnar geta ekki komið þaki yfir höfuðið næstu árin.
Við eigum að þekkja þetta allt, ekki svo langt síðan að það gerðist síðast.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.