16.11.2022 | 05:56
Spennusaga ársins!
Spennusaga ársins er tvímælalaust Sagan af bankasölunni.
Ný útkominn og öllum aðgengileg, greidd af skattfé. Stór spurning hvort ekki sé þarna komið framtíðarform til að berjast gegn dvínandi bókasölu þó líklegra til árangurs væri að kenna Íslendingum að lesa.
Sagan ber þó nokkurn keim af hinum þekktu sögum af Sherlock Holmes eins og reyndar allar betri glæpasögur gera. Án þess að hér verði farið of djúpt í söguþráðinn til að spilla ekki fyrir væntanlegum lesendum, þá hefst sagan á því að söguhetjan, ríkisendurskoðun, fær erindi frá fjármálaráðherra lands nokkurs. Hér hefði reyndar mátt leita aðeins betur í smiðju Arturs Conan Doyle og kridda frásögnina eilítið með því að söguhetjan hefði verið að gera tilraunir með eitur,spila á fiðlu eða jafnvel reykja vatnspípu, en látum vera.
Fjármálaráðherrann hafði lent í veseni með þjónum sínum og vildi fá að vita hvort hann eða þjónar hans hefðu framið glæp eða hagað sér ósæmilega í partíi nýverið.
Söguhetjan tók vel í erindið og ákvað snarlega að þrengja það niður í 4 viðráðanleg markmið.
Nú ber sem fyrrað varast að gefa of mikið upp af þessari bráðspennandi sögu en skal þó sagt hér að ráðherran og þjónar hans höfðu lent í slagtogi við fjárhættuspilara og endað með því að selja eigur ríkisins. Söguhetjan sagðist skyldu kanna hvort salan hefði verið rétt framkvæmd og hver aðkoma þjónanna hefði verið, hvort hún nálgaðist að vera eitthvað í líkingu við það sem ráðherrann og þjónarnir hefður raupað um að yrði í partíinu fyrr um kvöldið, hvort ríkið hefði tapað á gerningnum og hvort allir hefðu fengið að kaupa sem vildu.
Sagan er bráðsmellin og strax á fyrstu blaðsíðu tekur plottið að þykkna verulega.
Til dæmis segist söguhetjan ekki ætla að rannsaka hvort lög hafi verið brotin nema að mjög litlu leiti en til með að skoða hegðun parígesta þegar leið á kvöldið.Fjárhættuspilarana yrðu aðrir að rannsaka. En þetta verður að teljast skemmtilegt uppbrot á hefð glæpasagna.
Frásögnin notast nokkuð við endurlit eða svo kallað flashback og í anda nýmóðins glæpasagna veit lesandi næstum á fyrstu blaðsíðu hvert plottið er, en sagan snýst meir um leitina að sannleikanum,að upplýsa lesandan um hvað hafi í raun og veru gerst og hvers vegna það hafi gerst. Þar nálgast frásögnin að verða í anda hinnar norrænu félagslegu glæpasögu, sbr. Sjöval og Walö, nú eða sjálfur Arnaldur.
Á köflum verður þó trúverðugleiki frásagnarinnar nokkuð tæpur eins og t.d. það að helstu ráðgjafar ráðherrans kunni ekkert með Microsoft Exel skjöl að fara. En eins og flestum mun vera kunnugt þá eru Exel skjöl einmitt grunnurinn að allri fjárlagagerð a.m.k. hér á landi og vanþekking helstu sérfræðinga í þeim efnum ekki trúverðug. En þetta er nú fremur léttvægt atriði.
En eins og ég segi, sagan er spennandi og strax farin að vekja umtal og eftirtekt.
Að öllum líkindum skrifar höfundur eða höfundar undir dulnefni og má velta fyrir sér hverjir eru.
T.d. gæti vel verið að Arnaldur sjálfur sé þarna að verki, nú eða Katrín Jakobsdóttir.
Svo er aldrei að vita nema fleiri ráðherrar séu farnir að snúa sér að glæpasagnagerð.
Hver veit, en maður bíður spenntur eftir umfjölluninni Kiljunni!
Hér er svo krækja á söguna, endilega að lesa við erum jú búin að borga fyrir þetta.
https://www.rikisend.is/reskjol/files/Skyrslur/2022-Islandsbanki-sala.pdf
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.