Færsluflokkur: Bloggar

90% fyrirtækja stjórnað af vitleysingum?

Það hefur svona almennt verið talið heppilegast að meiri hluti fyrirtækja séu í einkaeigu. 

Nú hefur meiri hluti fyrirtækja á Íslandi a.m.k. í S.A. ákveðið að skikka fjölda starfsmanna sinna í verkfall. (Meiri hluti mældur í samanlagðri stærð eða eitthvað í þá veru)

Sumir telja að þar sé verið að kalla á ríkisafskipti. 

 

Eru stjórnendur þessara fyrirtæka virkilega það skársta sem fékst?

Hvernig lenti þetta fólk hjá fyrirtækjunum eða fyrirtækin hjá þessu fólki?

Eftir alsherjar hrun viðskiptalífsins var fyrirtækjum a.m.k. þeim stærstu endurúthlutað eftir óljósum reglum en væntanlega undir því leiðarljósi að þau stæðu sig betur sem einkafyrirtæki en í ríkiseigu.

Hvað klikkaði! 

Í covid gaf ríkið vel á garðan til margra fyrirtækja sem tóku jú flest fegins hendi á móti.

Það er jú hlýtt undir pilsfaldinum. 

Einhverjum gæti dottið í hug að þá væri bara best að ríkið gengi alla leið og tæki við stjórn þessara fyrirtækja.  Alla vega ef að svona fólk á að stjórna þeim.  

 

Í dag frekar en að borga lægst launaða fólkinu laun sem hægt er að lifa af þá leggjast þessi fyrirtæki í óútskýranlegan hefndarleiðangur gegn láglaunafólki, almenningi í landinu og ekki síst sjálfum sér. 

Í ónefndri sveit á Suðurlandi bjuggu tveir bræður saman með kýr. Þeim sinnaðist og þá setti annar þeirra fjósastígvélin í mjólkurtankinn til að eyðileggja mjólkina og hefna sín á hinum.

Þeir hafa greinilega verið eitthvað á undan sínum samtíma. 

 


Efling lögsótt fyrir að fara ekki í verkfall

Ef marka má Halldór Benjamín og nokkra fleiri þá virðist það mestur glæpur Sólveigar og Eflingar nú um stundir að fara ekki í alsherjarverkfall fremur en takmara sig við einstakar starfsgreinar.
 
Gott ef félag atvinnurekenda ætlar ekki bara að fara í málsókn vegna þess.
Þar með er félag atvinnurekenda í þeirri einstöku stöðu að lögsækja verkalýðsfélag fyrir að fara ekki í verkfall!
 
Sjálfir pikkuðu þeir reyndar út einn og einn viðsemjanda í einu.
 
Hvað um það, í öðru orðinu "grætur" Halldór hve verkföll eru slæm í hinu kvartar hann yfir að ekki skuli fleiri fara í verkfall.
 
Má biðja um aðeins meira samræmi í málflutninginn?

Sýrland nokkuð gleymt?

Menn hafa vonandi vegið og metið hvaða áhrif það hafði þegar Vesturlönd sköpuðu væntingar um stuðning við vorið á Sýrlandi?  Studdu raunar uppreisnarhópa til hálfs með hroðalegum afleiðingum. 

Sama má  segja um uppbyggðar væntingar um frelsi kvenna í Afganistan. Hvar standa þær nú?

Við björgum ekki heiminum og ættum að fara varlega í því að segja öðrum til í þeim efnum. 

Í það minnsta að gera ekki vont verra.

En þetta er nú vonandi allt vel úthugsað hjá Þórdísi og ríkisstjórninni, en ekki bara ódýrt dyggðarskraut í aðdraganda jóla. 


mbl.is „Ætlum ekki að horfa upp á þennan hrylling“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennusaga ársins!

Spennusaga ársins er tvímælalaust Sagan af bankasölunni.

Ný útkominn og öllum aðgengileg, greidd af skattfé.  Stór spurning hvort ekki sé þarna komið framtíðarform til að berjast gegn dvínandi bókasölu þó líklegra til árangurs væri að kenna Íslendingum að lesa.

Sagan ber þó nokkurn keim af hinum þekktu sögum af Sherlock Holmes eins og reyndar allar betri glæpasögur gera.  Án þess að hér verði farið of djúpt í söguþráðinn til að spilla ekki fyrir væntanlegum lesendum, þá hefst sagan á því að söguhetjan, ríkisendurskoðun, fær erindi frá fjármálaráðherra lands nokkurs.   Hér hefði reyndar mátt leita aðeins betur í smiðju Arturs Conan Doyle og kridda frásögnina eilítið með því að söguhetjan hefði verið að gera tilraunir með eitur,spila á fiðlu eða jafnvel reykja vatnspípu, en látum vera. 

Fjármálaráðherrann hafði lent í veseni með þjónum sínum og vildi fá að vita hvort hann eða þjónar hans hefðu framið glæp eða hagað sér ósæmilega í partíi nýverið. 

Söguhetjan tók vel í erindið og ákvað snarlega að þrengja það niður í 4 viðráðanleg markmið.

Nú ber sem fyrrað varast að gefa of mikið upp af þessari bráðspennandi sögu en skal þó sagt hér að ráðherran og þjónar hans höfðu lent í slagtogi við fjárhættuspilara og endað með því að selja eigur ríkisins. Söguhetjan sagðist skyldu kanna hvort salan hefði verið rétt framkvæmd og hver aðkoma þjónanna hefði verið, hvort hún nálgaðist að vera eitthvað í líkingu við það sem ráðherrann og þjónarnir hefður raupað um að yrði í partíinu fyrr um kvöldið, hvort ríkið hefði tapað á gerningnum og hvort allir hefðu fengið að kaupa sem vildu.

Sagan er bráðsmellin og strax á fyrstu blaðsíðu tekur plottið að þykkna verulega.

Til dæmis segist söguhetjan ekki ætla að rannsaka hvort lög hafi verið brotin nema að mjög litlu leiti en til með að skoða hegðun parígesta þegar leið á kvöldið.Fjárhættuspilarana yrðu aðrir að rannsaka.  En þetta verður að teljast skemmtilegt uppbrot á hefð glæpasagna. 

Frásögnin notast nokkuð við endurlit eða svo kallað flashback og í anda nýmóðins glæpasagna veit lesandi næstum á fyrstu blaðsíðu hvert plottið er, en sagan snýst meir um leitina að sannleikanum,að upplýsa lesandan um hvað hafi í raun og veru gerst og hvers vegna það hafi gerst. Þar nálgast frásögnin að verða í anda hinnar norrænu félagslegu glæpasögu, sbr.  Sjöval og Walö, nú eða sjálfur Arnaldur.

Á köflum verður þó trúverðugleiki frásagnarinnar nokkuð tæpur eins og t.d. það að helstu ráðgjafar ráðherrans kunni ekkert með Microsoft Exel skjöl að fara.  En eins og flestum mun vera kunnugt þá eru Exel skjöl einmitt grunnurinn að allri fjárlagagerð a.m.k.  hér á landi og vanþekking helstu sérfræðinga í þeim efnum ekki trúverðug.  En þetta er nú fremur léttvægt atriði.

En eins og ég segi, sagan er spennandi og strax farin að vekja umtal og eftirtekt.

Að öllum líkindum skrifar höfundur eða höfundar undir dulnefni og má velta fyrir sér hverjir eru.

T.d. gæti vel verið að Arnaldur sjálfur  sé þarna að verki, nú eða Katrín Jakobsdóttir.

Svo er aldrei að vita nema fleiri ráðherrar séu farnir að snúa sér að glæpasagnagerð.

Hver veit, en maður bíður spenntur eftir umfjölluninni Kiljunni!

 

Hér er svo krækja á söguna, endilega að lesa við erum jú búin að borga fyrir þetta.

https://www.rikisend.is/reskjol/files/Skyrslur/2022-Islandsbanki-sala.pdf


Verða að skila rakettunum (kannski)

Samkvæmt mjög vel ígrundaðri og yfirfarinni skýrslu um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka þá tókst þar alveg frábærlega vel til nema þar sem ekki tókst nógu vel til. En það var engum að kenna.  

Það að fjármálaráðherra skyldi lenda í því að faðir hans fengi einn örfárra að kaupa á afsláttarprís var áreiðanlega ekki syninum að kenna enda var armslengdin slík að eiginlega kom fjármálaráðherrann hvergi nærri sölunni sem hann þó sá um að yrði framkvæmd. 

 

Ef eitthvað mistókst í þessu ferli öllu þá var það hugsanlega og þó bara kannski, bankasýslunni að kenna án þess að í skýrsluni sé nú verið að benda á einhverja blóraböggla. 

 

Það er þó talið vissara að hún skili aftur rakettunum sem hún fékk í uppbót fyrir vel unnin störf. 

Helst fyrir áramót. 


Óvæntur hanaslagur Sjalla

Það lítur út fyrir að ætla að hlaupa smá spenna í formannakjör Sjálfstæðisflokksins.

Guðlaugur Þór stökk nokkuð óvænt fram gegn Bjarna Ben. 

 

Manni dettur ósljálfrátt í hug sena frá David Attenborough, rostungur bröltir inn á yfirráðasvæði aðalrostungsins og hótar að reka vígtennurnar á kaf í hann og hirða svo allar dömurnar. "Nú já það hlaut svo sem að koma að þessu en dugar víst ekki annað en að verjast, annars er ég náttúrulega farinn" gæti hinn hugsað. 

 

Nema hvað að þetta verður auðvitað enginn rostungaslagur. Ekki milli tveggja kurteisustu og umtalsfrómustu stjórnmálamannanna í dag.  Enda vita þeir báðir að fátt er eins illa séð innan flokksins eins og veisluspillar sem velta um glösum. Nei baráttan er miklu líkari störukeppni. Hvor verður seinni til að segja eitthvað slæmt um hinn og svo auðvitað reyklausu bakherbergin, maður lifandi! 

Raunverulegu ágreiningsefnin látin liggja djúpt í súrnum og ekki nema rétt naslað í þau á bak við tjöldin.  Hvað svo sem dettur upp úr hörðustu fylgendum. 

Guðlaugur sagði nú svo sem ekki margt sem hönd var á festandi í viðtölum dagsins. Þó var hægt að lesa ýmislegt milli línanna.  

Eins og að Bjarni Ben sé ekki nógu fylgispakur við grunngildin að lækka skatta og draga úr bákninu. Venjulegi maðurinn sérstaklega einyrkinn eigi undir högg að sækja í flokknum. Þar sé Guðlaugur vænlegri kostur. 

Ekki hefur Guðlaugur þó sýnt mikið meiri lit á að liðka fyrir strandveiðum hvar sjálfstæða einyrkjan ætti nú helst að vera að finna a.m.k. eftir að kaupmaðurinn á horninu hvarf inn í lífeyrissjóðastyrkta fákeppnismafíu matvörumarkaðarins. 

Guð-laugur láti þó(r)  gott á vita.  Bjarni sjálfur aðeins valtur í sessi eftir að klúðra svo eftirminnilega sölunni á hlut ríkisins í Íslandsbanka að einn örfárra einstaklinga sem fengu að kaupa á sérstökum vildarkjörum var faðir hanns sjálfs.  Hvers vegna skýrsla ríkisendurskoðunar um það ferli dregst svona von úr viti og fram yfir leiðtogakjör Sjálfstæðisflokksins geta væntanlega ekki nema allra snjöllustu lagaklæjarefir og spunameistarar sagt til um. Samt, þrátt fyrir þetta virkar Bjarni sem helsta akkerið gegn kaosi íslenskra stjórnmála í dag.  Hugsanlega þó bara svona flinkur að plata mann ;-) 

 

En ef Bjarni Ben tapar fyrir Guðlaugi og ólíkt t.d. Haraldi Benediktssyni (ekki bræður), stendur við orð sín að hætta, þá er farin einn sá allra snjallasti pólitíkus sem hér hefur verið síðan að Steingrímur Hermannsson var og hét. Að ná að bræða saman núverandi ríkisstjórn úr nokkurnvegin engu og hreppa svo fjármálaráðuneytið sem stjórnar víst öllu (sbr. K.F.) var ekkert minna en hrein pólitísk snilld.

Bjarni áttaði sig náttúrulega á því að VG eru pólitísk börn sem þykir kexið bara betra báðum megin. Stæra sig af virkjunum sem þau hafa alla tíð verið á móti. Nú eða framsókn sem er eins og illa upp alinn prinsipplaus strákur sem veit ekkert hvað hann vill en verður til friðs fái hann bara nógu stóran sleikjó. 

Aðrir voru raunverulega óstjórntækir, þetta var það langskársta sem í boði var þar til kannski nú. (Miðflokkurinn auðvitað undanskilinn)

Guðlaugur má á hinn bóginn eiga að hann var sá eini sem sýndi einhvern lit á að aðstoða Vígdýsina Hauks í að reyna að grafast fyrir um lokuð myrkraverk fyrstu hreinu vinstristjórnarinnar gagnvart helstu fórnarlömbum Hrunsins. Þó lítið yrði úr enda þurftu svo margir að halda áfram að græða.  Mögulega á litli maðurinn raunverulega einhverja von í Gulla!

 

En svona til að enda þetta áður en maður móðgar mikið fleiri er réttast að vitna áfram í Attenborough en hann spurði "hvernig elskast broddgeltir"?  Sem er hugsanlega betri og réttari samlíking á baráttu þessara tveggja sjálfstæðisforkólfa!

Svarið er: "Mjög varlega"


Viðvarandi hagstjórnarmistök

Mesta böl margra íslendinga í dag er of hátt húsnæðisverð. 

Grunnástæðan er of lítið framboð á húsnæði. 

Þegar covid var og hét þá þurfti að örfa efnahagslífið hér sem annarsstaðar, reka peningana út að vinna.  Það var skynsamlegt. 

En sú hliðarverkun varð að lækkaðir vextir á lánum leiddi til þess að fólk gat tekið hærri lán og bauð hærra í allt of takmarkað framboð af húsnæði. 

Við þær aðstæður að framboð á húsnæði var áfram allt of lítið þá varð að gera hliðarráðstafanir til að eftirspurnin ryki ekki upp úr öllu valdi vegna lágu vaxtanna.

Einfaldast hefði verið að setja reglur um hærri eiginfjárkröfu, t.d. ekki lánað nema 2/3 af kaupverði. Þannig hefði eftirspurnin verið löguð að of litlu framboði á húsnæði og komið í veg fyrir bólumyndun. Næsta skref hefði svo verið með öllum ráðum að auka framboð á húsnæði.

Þetta voru hagstjórnarmistök númer 1.

Þau voru afar slæm og juku á neyð sérstaklega láglaunafólks og styrkþega. Eiga eftir að splundra hér kjarasamningum og skapa endalausa ólgu á vinnumarkaði. 

 

Nú er seðlabankastjóri að hækka vexti til að slá á verðbólgu sem reyndar stafar mest af húsnæðisverðbólunni og telur sig vera að kæla húsnæðismarkaðinn. 

Þarna er farið í öfuga endann, dregið úr eftirspurninni með verstu hugsanlegu aðferð til að ballansera hana við allt of lítið framboð. 

Betra hefði verið að kyngja óbragðinu af hagstjórnarmistökunum og laga það sem hægt var að laga. T.d. með því að hækka eiginfjárkröfu lántakenda, taka húsnæðisverð út úr vísitölunni a.m.k. tímabundið og halda vöxtum áfram tiltölulega lágum svo menn hætti nú ekki að byggja hús. 

Því grunnvandamál húsnæðismarkaðarins er of lítið framboð. Það þarf að byggja miklu fleiri hús. Með því að hækka vexti þá verður dýrara að byggja hús og þegar það fer saman verðlækkun á húsnæðismarkaði (sem mátti þó verða) þá er hætt við að fleiri en eitt og fleiri en tvö húsbyggingarverkefnin fari í vaskinn og önnur komist aldrei á koppinn. Því markmið stýrivaxtahækanna er jú að reka peningana inn í banka svo þeir fari nú ekki að valda þenslu. 

Þannig dregur vaxtahækkunin úr framboði á húsnæði og seinkar lausn stærsta efnahagsvanda okkar íslendinga sem er OF LÍTIÐ FRAMBOÐ Á HÚSNÆÐI!

Þetta eru hagstjórnarmistök númer 2. 

 

Svo bíða hagstjórnarmistök númer 3. handan við hornið. 

Því hver verður afleiðingin af hávaxtastefnunni. Húsbyggendur og húskaupendur fara umvörpum á hausinn, þeir og leigendur þurfa að greiða ógnarfé í vaxtahýtina, á endanum fellur húsnæðisverð niður úr öllu valdi (en ekki skuldir lántakenda) og þeir sem nutu vaxtahækananna kaupa húsin á hratvirði og heilu kynslóðirnar geta ekki komið þaki yfir höfuðið næstu árin.  

Við eigum að þekkja þetta allt, ekki svo langt síðan að það gerðist síðast. 

 


Friður er í flokknum........

Friður er í flokknum varla

flestir janfnan skælandi

og fer að verða fátt um karla

hjá fröken Ingu Sælandi


mbl.is Ætla ekki að stíga til hliðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríka fólkið og fjármagnstekjuskatturinn

Smávegis af eldhúskrókshagfræði!

Þegar vextir eru hækkaðir þá er líklegra að þeir sem eigi peninga velji fremur að setja þá á vexti í banka (nú eða kaupa skuldabréf) fremur en að veita þeim út í atvinnulífið. T.d. að fjárfesta í steinsteypu. 

Þannig er því markmiði náð að nota vexti til að slá á þenslu. 

Ef á hinn bóginn að fjármagnstekjuskattur er hækkaður á vaxtatekjur þá dregur það úr hagkvæmni þess fyrir "ríka kallinn" að leggja peningunum sínum við bankabryggjuna. 

Þá verður að hækka vexti enn meir en annars hefði þurft til að þeir haldi áfram að slá á þensluna og draga úr verðbólgu. 

Niðurstaðan verður sú að hækkun fjármagnstekjuskatts veldur hækkun vaxta. 

 

Ef stjórnvöld sjá í hyllingum að hækka fjármagnstekjuskatt t.d. til að greiða niður vexti þá er þarmeð búið að útbúa kassíska aparólu þar sem allt bítur í skottið á sjálfu sér og allt verður áfram jafn andskoti dýrt og áður!


Páley rannsóknarblaðamennirnir og litla gula hænan!

Þegar Páley var lögreglustjóri í Vestmannaeyjum lá hún undir ámæli af hálfu blaðamanna að gefa þeim ekki sem mestar upplýsingar og sem fyrst um rannsóknir á meintum kynferðisbrotamálum. 

Aftur var urgur í blaðamönnum  vegna þess á fá ekki sem mestar upplýsingar og sem fyrst af rannsókn hennar á morðinu á Blönduósi.

 

En af rannsókn hennar á meintum afbrotum blaðamanna í farsímamálinu vilja þeir sem minnst vita. 

Þar er helst að treysta á bloggara út í bæ!

 

Af hverju ætli þetta minni mann á súra útgáfu af litlu gulu hænunni?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband